Lausnir fyrir fólk á hraðferð
Ný verslun Krónunnar opnaði 7. feb í Skeifunni 11d og eru þá verslanirnar orðnar tuttugu talsins. Í búðinni verður lögð áhersla á að gera fólki kleift að fara í gegnum verslunina á skemmri tíma, grípa með sér hollan hádegisverð á góðu verði eða stökkva inn eftir einfaldri lausn á kvöldmatnum á leið heim úr vinnu.
Það er skýrt markmið Krónunnar að leggja sitt af mörkum við að einfalda hversdaginn fyrir viðskiptavini sína. Því var lögð áhersla á að gera fólki kleift að fara í gegnum verslunina á hraðferð. Við hönnun verslunarinnar var haft að leiðarljósi að lágmarka þann tíma sem verslunarferðin tekur og er hún því búin sjálfsafgreiðslukössum til að stytta afgreiðslutímann. Auk þess voru umhverfismarkmið Krónunnar í forgrunni en verslunin er búin lokuðum kælum sem skilar 25-30% orkusparnaði, notast er við led lýsingu og ekki verður hægt að fá plastburðarpoka í versluninni.
„Við hjá Krónunni erum meðvitum um að viðskiptavinir Krónunnar eru oft tímabundnir og viljum leggja okkar af mörkum til að einfalda líf þeirra. Með nýju versluninni í Skeifunni vildum við því koma til móts við þarfir viðskiptavina Krónunnar og auka þjónustuna við hverfin í kring sem og þann stóra hóp sem starfar á svæðinu. Aukið aðgengi að hollari skyndibita á góðu verði, hvenær sem er dagsins, einfaldleiki og tímasparnaður ásamt áherslu okkar á umverfissjónarmið voru því allsráðandi við hönnun búðarinnar,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.


